Guangzhou

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skýjakljúfar Guangzhou borgar með um 18,7 milljónir íbúa. Borgin er í Guangdong, ríkasta héraði Kína.
Á stórborgarsvæði Guangzhou bjuggu um 18,7 milljónir árið 2020. Borgin er í miðju Guangdong, fjölmennasta og ríkasta héraði Kína.
Staðsetning Guangzhou borgar í Guangdong héraði í Kína.
Staðsetning Guangzhou borgar í Guangdong héraði í Kína.
Landakort er sýnir staðsetningu Guangzhou borgar (rauðmerkt) í Guangdong héraði (ljósgrátt) í Kína.
Landakort er sýnir staðsetningu Guangzhou borgar (rauðmerkt) í Guangdong héraði (ljósgrátt) í Kína.
Kanton turninn („Sjónvarps- og útsýnisturn Guangzhou“), er 604 metra hár fjölnota turn í Haizhu hverfi Guangzhou borgar. Hann er eitt hæsta mannvirki veraldar.
Kanton turninn „sjónvarps- og útsýnisturn Guangzhou“, er 604 metra hár fjölnota turn í Haizhu hverfi Guangzhou borgar. Hann er eitt hæsta mannvirki veraldar.

Guangzhou (kínverska: 廣州; rómönskun: Guǎngzhōu; einnig þekkt sem Canton/Kanton og Kwang-chow með rómönskun) er höfuðborg og stærsta borg Guangdong-héraðs í suðurhluta Alþýðulýðveldisins Kína.[1]

Borgin er við ósa Perlufljóts við Suður-Kínahaf. Hún er um 120 kílómetrum norðvestur af Hong Kong og 145 kílómetrum norður af Makaó. Samkvæmt kínverska manntalinu árið 2020 var íbúafjöldi borgkjarna Guangzhou um 16,1 milljón en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 18,7 milljónir. Það er 47% fjölgun frá fyrra manntali árið 2010. Borgin og nærliggjandi svæði er eitt þéttbýlasta í heiminum með um 66 milljónir íbúa.[2]

Vegna stöðu sinnar á mótum fljóta og sjávar hefur Guangzhou lengi verið ein helsta verslunar- og viðskiptamiðstöð Kína. Hún hefur verið sem dyr fyrir erlend áhrif í Kína allt frá 3. öld e.Kr. Hún var fyrsta kínverska höfnin sem evrópskir kaupmenn heimsóttu reglulega, og kölluðu þá Canton. Enska nafnið „Canton“ er dregið úr portúgölsku „Cantão“ sem var einhverskonar framburður á Guangdong.[3][4]

Kanton er það borgarnafn sem íslenskir prentmiðlar hafa langmest notað, allt til dagsins í dag. Á síðari hluta 20. aldar birtist Kwangchow þó æ meir í íslenskum miðlum í stað Kanton, en í dag er Guangzhou meira notað.[5][6][7]

Borgin er mikilvæg menningar-, iðnaðar-, viðskipta -, og samskiptamiðstöð. Meginhöfnin er stór sem og alþjóðaflugvöllur borgarinnar. Þá er borgin á lestarleið Beijing og Hong Kong. Efnahagur borgarinnar er gríðaröflugur og hefur verið í miklum vexti í áratugi. Síðustu áratugir hafa einkennst af umfangsmiklum byggingarframkvæmdum og innviðauppbyggingu. Borgin er leiðandi fjármálamiðstöð á Asíu.

Saga Guangzhou[breyta | breyta frumkóða]

Fornsögulegur tími[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af Baiyue (Yue) manni. Yue voru ýmis þjóðarbrot sem bjuggu í Suður-Kína og Norður-Víetnam á 1. árþúsundi f.Kr. og 1. árþúsund e.Kr. Þeir voru þekktir fyrir stutt hár, mikil húðflúr, fín sverð og sjómannahæfileika. Þeir svertu tennur sínar.
Stytta af Baiyue (Yue) manni. Yue voru ýmis þjóðarbrot frá Suður-Kína og Norður-Víetnam á 1. árþúsundi f.Kr. og 1. árþúsund e.Kr. Þeir voru þekktir fyrir stutt hár, mikil húðflúr, fín sverð og sjómannahæfileika. Þeir svertu tennur sínar.

Elstu þekktu íbúar Guangzhou-svæðisins voru Baiyue, Taíþjóðir og Shan fólkið. Baiyue samanstóð af ýmsum þjóðflokkum sem bjuggu í Suður-Kína og Norður-Víetnam á 1. árþúsundi f.Kr. og 1. árþúsundi f.Kr. Taíþjóðirnar töluðu taí og voru dreifðir um stóran hluta Suður-Kína og meginland Suðaustur-Asíu. Shan fólkið var þjóðflokkur frá Suðaustur-Asíu sem nú er Mjanmar.

Á valdatíma Vestur-Zhou (1146–771 f.Kr.) var þegnleg hollusta Baiyue-fólksins á staðnum við lénsríkið Chu (sem nú er í norðausturhluta Guangzhou), sem gaf tilefni til nafnsins Chuting fyrir svæðið.[8] Síðar var víggirtur bær þekktur sem Nanwu Cheng, í norðurhluta núverandi borgar, byggður á Chunqiu tímabilinu (770–476 f.Kr.). Á árunum 339 og 329 f.Kr. var bærinn endurbyggður og stækkaður og var þekktur sem Wuyang Cheng („Borg fimm geita“) - nefnd eftir goðsögninni um að guðir á fimm geitum hafi stigið niður af himni og bjargað borginni frá hungursneyð.[9][10]

Panyu[breyta | breyta frumkóða]

Árið 214 f.Kr. var þéttbýlið við Guangzhou formlega gert að smáborg (þá þekkt sem Panyu fyrir tvíburahæðirnar Pan og Yu í nágrenninu) gerð að höfuðborg Nanhai-héraðs. Þetta var á valdatíma Kinríkisins (Qin Shi Huang fyrsta keisara Kína og sonar hans Qin Er Shi) (221–207 f.Kr.).

Nanyue[breyta | breyta frumkóða]

Silkiofin líkklæði Zhao Zhen, keisara Nanyue-ríkisins. Grafhýsið fannst við fornleifauppgröft 1983 í Guangzhou.
Silkiofin líkklæði Zhao Zhen, keisara Nanyue-ríkisins. Grafhýsið fannst við fornleifauppgröft 1983 í Guangzhou.
„Musteri hinna fimm ódauðlegu“ er fyrrum daoista-hof í Guangzhou. Ljósmynd frá árinu 1880.
Musteri hinna fimm ódauðlegu“ er fyrrum daoista-hof í Guangzhou. Ljósmynd frá árinu 1880.

Við fall Kinríkisins stofnaði Zhao Tuo hershöfðingi (240-137 f.Kr.) sjálfstjórnarríki þekkt sem Nanyue. Lýsti hann sig fyrsta keisara Nanyue veldisins. Það varð síðar innlimað árið 111 f.Kr. af Hanveldinu (206 f.Kr. - 220 e.Kr.) sem stók yfir lendur suður á bóginn. Næstu 300 ár vor ár aðlögunar fyrir Yue fólkið, frumbyggja Suður-Kína, og svæðið varð æ meir samofið keisaraveldinu.

Keisaratímar[breyta | breyta frumkóða]

Búddahofið „Musteri sex Banyan fíkjutrjánna“ var reist í Guangzhou árið 537. Það er í dag safn.
Búddahofið „Musteri sex Banyan fíkjutrjánna“ var reist í Guangzhou árið 537. Það er í dag safn.
Málverk frá 1805 af erlendum vöruhúsum Kanton. Á árunum 1757 til 1842 var Guangzhou við Perlufljót eini löglegi staður vestrænna viðskipta við Kína. Kaupmenn víða að komu sér upp aðstöðu til viðskipta.
Málverk frá 1805 af erlendum vöruhúsum Kanton. Á árunum 1757 til 1842 var Guangzhou við Perlufljót eini löglegi staður vestrænna viðskipta við Kína. Kaupmenn víða að komu sér upp aðstöðu til viðskipta.
Þann 24. maí 1841 hóf breski herinn umsátur um borgina Guangzhou. Fyrra ópíumstríðið endaði með auðmýkjandi ósigri fyrir Kína.
Þann 24. maí 1841 hóf breski herinn umsátur um borgina Guangzhou. Fyrra ópíumstríðið endaði með auðmýkjandi ósigri fyrir Kína.
Málverk af undirritun og innsiglun Nanking-sáttmálans árið 1842, er neyddi kínversku stjórnina til að opna fyrir utanríkisviðskipti í fimm hafnarborgum. Guangzhou var ein þessara „sáttmálahafna“.
Málverk af undirritun og innsiglun Nanking-sáttmálans árið 1842, er neyddi kínversku stjórnina til að opna fyrir utanríkisviðskipti í fimm hafnarborgum. Guangzhou var ein þessara „sáttmálahafna“.
Kanton (nú Guangzhou) um 1880.
Síki Kanton (Guangzhou) um 1880.
Aðalinngangur háskólasvæðis Tækniháskóla Suður-Kína.
Kínverskir embættismenn keisaratíma 19. aldar í Kanton (Guangzhou).

Í fjórar aldur eftir valdatíð Konungsríkjanna þriggja allt til stofnunar Tangveldisins (árið 618) var Norður-Kína yfirbugað af innrásarher. Á meðan var Guangzhou áfram undir kínverskri stjórn. Borgin óx að auði og íbúafjölda og varð mikilvæg viðskiptahöfn í suðurhluta Kína. Búddahof voru reist, meðal annars „Musteri sex Banyan trjánna“ árið 537, sem enn stendur í dag. Blómlegu samfélagi var einnig haldið uppi af arabískum og hindúum kaupmönnum.

Friður og velmegun jókst enn frekar á tíma Tangveldisins (618–907) en borgin varð fyrir mikilli eyðileggingu í borgaradeilum í lok þess tíma. Á árunum 878–879 framdi uppreisnarher fjöldamorð á 120.000–200.000 erlendum íbúum og Kínverjum hafnarborgarinnar.

Á tíma Songveldisins (960–1279) fjölgaði íbúum Guangzhou og utanríkisviðskipti jukust svo að stækka þurfti borgina. Á seinni hluta Songveldisins sem kennt er við „Suður-Songveldið“ (1127–1279) sigldu kínverskir sjómenn og kaupmenn frá Guangzhou til Suðaustur-Asíu og opnuðu þannig leið fyrir brottflutning Kínverja til útlanda á síðari öldum.

Í kjölfar landvinninga mongóla seint á 13. öld og alla 14. öld fluttu margir Kínverjar frá Norður-Kína í Guangdong-hérað. Þrátt fyrir að mikilli eyðileggingu mongólskra landvinninga blómstraði hagur Guangzhou, undir Júanveldinu (1271–1368) sem hvöttu til sjávarviðskipta og héldu samskiptum Kínverja og Mongóla í skefjum.

Á tímum Mingveldisins (1368–1644) stækkaði Guangzhou og var endurbyggð. Zhenhai turninn („Fimm hæða pagóðan“) var byggður 1380, Pazhou pagóðan byggð 1597, og Chigang pagóðan („Pagóðan á Rauðsteinahæð“ árið 1619. Utanríkisviðskipti borgarinnar breyttust einnig þegar Evrópubúar tóku við af Aröbum. Fyrstu Portúgalarnir komu árið 1516, en Hollendingar, Bretar og aðrir fylgdu í kjölfarið á 17. öld.[11]

Þegar Guangzhou fór undir stjórn Tjingveldisins (1644–1912) var mikilvægi borgarinnar viðurkennt og árið 1746 var hún gerð að höfuðborg landstjóraumdæmanna Guangdong og Guangxi.

Stjórnvöld urðu móttækilegri fyrir utanríkisviðskiptum eftir að hafa náð yfirráðum yfir Taívan árið 1683. Portúgalar frá Makaó og Spánverjar frá Maníla sneru aftur, sem og múslimskir, armenskir og enskir kaupmenn. Höfnin í Guangzhou varð fljótt alþjóðlegur áfangastaður. Árið 1685 opnaði Breska Austur-Indíafélagið skrifstofu í Guangzhou og árleg viðskipti hófust árið 1699. Frá 1699 til 1714 sendu bæði Bresk Austur-Indíafélagið og Franska Austur-Indíafélagið eitt til tvö skip á hverju ári; Austurríska Austur- Indíufélagið kom árið 1717, Hollenska Austur-Indíufélagið árið 1729, Danska Asíufélagið árið 1731, og sænska Austur- Indíufélagið næsta ár. Bandarísk skip kom fyrst árið 1784, og skip Ástrala árið 1788. Guangzhou varð umfangsmikil höfn með te og postulín sem megin útflutningsvörur.

Viðskipti gengu framan af vel fyrir sig, en árið 1820 varð erfileika vart í samskiptum erlendra kaupmanna og Kínverja. Útlendingunum fundu að viðskiptahömlum og kínversk yfirvöld treg til að opna eðlileg diplómatísk samskipti. Innflutningur ólöglegs ópíum varð æ meira bitbein. Árið 1839 lögðu Kínverjar hald á og eyðilögðu mikið magn af ólöglegu ópíum sem Bretar fluttu inn. Aðstaða erlendra kaupmanna og fyrirtækja var eyðilögð. Í hefndarskyni réðust Bretar á varðstaði Kínverja við Perlufljót. Fyrsta ópíumstríðið (1839–42) sem endaði með auðmýkjandi ósigri fyrir Kína. Guangzhou borgin bjargaði sér frá glötun með því að greiða hátt lausnargjald. Kínversku stjórnina var neydd til að opna fyrir utanríkisviðskipti í fimm hafnarborgum með undirritun Nanking-sáttmálans svokallaða árið 1842. Guangzhou var ein þessara „sáttmálahafna“. Að auki missti borgin samkeppnisforskot þar sem fleiri borgir voru þá opnaðar fyrir utanríkisviðskipti. Árið 1844 gerðu Frakkar og Bandaríkjamenn svipaða samninga um „sáttmálahafnir“.

Með veikara miðstjórnarvaldi og niðurlægð kínversk stjórnvöld jókst órói í landinu. Til átaka og uppreisna kom víða. Taiping-uppreisnin var borgarastyrjöld sem stóð í Kína frá 1850 til 1864. Leiðtogi hennar var Hong Xiuquan, kínverji af Hakka-þjóðerni í frá því sem nú er Guangzhou borg. Talið er að 20-30 milljónir manna hafi látist í stíðinu í suður og austurhluta Kína.

Þetta tengdist svokölluðum „Punti-Hakka þjóðernisstríðum“ í Guangdong héraði á árunum 1855 til 1867. Það voru átök milli fólki af Hakka þjóðerni og annarra kantónskra íbúa. Talið er að stríðin hafi kostað um milljón manns lífið og fleiri flýðu átökin til annarra héraða.

Á sama tíma urðu átök við erlenda kaupmenn í Guangzhou þar sem byggingar og aðstaða var eyðilögð. Kaupmenn færðu sig meir til útjaðra borgarinnar. Utanríkisviðskipti Kína fluttist nú æ meir til Sjanghæ.

Byltingatími[breyta | breyta frumkóða]

Chiang Kai-shek herforingi og Sun Yat-sen (sitjandi). Sun var læknir, byltingarmaður og stjórnmálaleiðtogi. Hann er álitinn einn af stofnfeðrum kínverska lýðveldisins og nýtur enn í dag mikillar virðingar í Kína.
Chiang Kai-shek herforingi og Sun Yat-sen (sitjandi). Sun er álitinn einn af stofnfeðrum kínverska lýðveldisins og nýtur enn í dag mikillar virðingar í Kína.

Í lok Tjingveldisins varð Guangzhou að miðpunkti herferðar Sun Yat-sen byltingarforingja, í að steypa Tjingveldinu af stóli og stofna kínverskt lýðveldi. Til uppreisna kom árið 1895 og aftur 1911, sem ruddi brautina fyrir velgengni kínversku byltingarinnar 1911–12 sem að endingu steypti Tjingveldinu.

Lýðveldistími[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. október 1949 fór „Frelsisher Alþýðunnar“, her kommúnista inn í Guangzhou.
„Frelsisher Alþýðunnar“ (her kommúnista) þrammar inn í Guangzhou 14. október 1949.

Á árinum 1916 til 1925 varð Guangzhou miðstöð aðgerða gegn kínverskum stríðsherrunum og þjónaði sem höfuðstöðvar Þjóðernisflokks Sun Yat-sen (Kuomintang).

Sun lagði áherslu á „þrjú lögmál fólksins“ sem fólst í þjóðernishyggju (gegn yfirráðum heimsvaldssinna), lýðræði og afkomu fólks (verslunarfrelsi og nútímaskattkerfi.

Sun endurskipulagði flokkinn árið 1924 til að endurvirkja þjóðernisbyltinguna. Guangzhou varð miðpunktur stjórnmálaólgu. Til borgarinnar streymdu hægri- og vinstrisinnaðir meðlimir Kuomintang, meðlimir nýstofnaðs kínverska kommúnistaflokksins og sovéskir ráðgjafar. Chiang Kai-shek, Maó Zedong og Zhou Enlai hófu feril sinn í Guangzhou undir handleiðslu Sun.

Chiang náði völdum þegar hann barði niður uppreisn sjálfboðaliðasveitar kaupmanna Guangzhou og sigraði stríðsherrana á staðnum (1924). Með dauða Sun leiðtoga árið 1925 flæktist Guangzhou í valdabaráttu milli kommúnista og þjóðernissinna. Borgin var á árunum 1928 til 1937 opinberlega undir stjórn þjóðernissinnastjórnarinnar, en henni var í raun stjórnað af óháðum leiðtogum, sem gagnrýndu einræði Chiangs og hótuðu aðskilnaði frá þjóðernisstjórninni sem þá var komin til Nanjing. Árið 1937, þegar stríð gegn Japönum braust út, varð Guangzhou eitt helsta skotmark japanskra loftárása. Borgin féll árið 1938 og var undir japönskum hernámi til 1945. Endurreisn hófst með valdatöku kommúnista árið 1949.

Samtímaborg[breyta | breyta frumkóða]

Á lýðveldistímanum árið 1921, hafði Guangzhou formlega verið útnefnd stjórnunarlega sjálfstæð borg undir stjórn þjóðernissinna þar sem sonur Sun Yat-sen varð fyrsti borgarstjóri Guangzhou. Undir nýrri stjórn kommúnista, hélt borgin stöðu sinni sem sveitarfélag er heyrði beint undir landsstjórnina, en árið 1954 var borgin sett undir stjórn Guangdong-héraðs. Önnur veruleg breyting á stjórnsýslu borgarinnar varð árið 2005, þegar þéttbýli í nágrenni voru sameinuð borginni.

Nútímavæðing Guangzhou hófst upp úr 1950, með uppbyggingu stóriðju og þróun borgarinnar sem ein helsta miðstöð Kína til utanríkisviðskipta.

Guangzhou hagnaðist mjög á því að Kína tók upp stefnu um efnahagsumbætur sem hófst snemma á níunda áratugnum, sérstaklega með stofnun „sérstakra efnahagssvæða“ í nálægum Shenzhen og Zhuhai.

Borgin gekk í gegnum viðvarandi hagvaxtarskeið sem hélt áfram í byrjun 21. aldar og einkenndist af miklum byggingarframkvæmdum og uppbyggingu innviða. Þar kom borgin aftur fram sem fjármála- og efnahagsmiðstöð Suður-Kína.

Landafræði[breyta | breyta frumkóða]

„Himnatindur Nankun“ sem er hæsta fjall Guangzhou, eða um 1.210 metra.
„Himnatindur Nankun“ sem er hæsta fjall Guangzhou, eða um 1.210 metra.
Perlufljót, þriðja stærsta fljót Kína, rennur í gegnum Guangzhou. Fljótið hefur í aldanna rás verið þéttbýlinu lífæð samgagna.
Perlufljót, þriðja lengsta fljót Kína, rennur í gegnum Guangzhou. Fljótið hefur í aldanna rás verið þéttbýlinu lífæð samgagna.

Elsti hluti Guangzhou borgar var staðsettur nálægt Baiyun-fjallinu á austurbakka Perlufljóts (Zhujiang) um 129 kílómetra frá mótum við Suður-Kínahaf. Perlufljót, þverár þess og óshólmar mótaði ríkulega sléttu árframburðar, með tengingu við hafið við Humen sundið (einnig nefnt Bocca Tigris). Núverandi borg spannar um 7.434 ferkílómetra beggja vegna fljótsins í suður-miðhluta Guangdong héraðs.

Perlufljót er þriðja lengsta fljót Kína. Við árósa þess er vistkerfi milli há og lágflæðimarka sjávarfalla, hins vegar hefur mikið land við fljótsbakkana verið endurheimt fyrir landbúnað. Þar eru hrísgrjónaakrar sem vegna 12 mánaða vaxtartímabils, standa venjulega undir þremur hrísgrjónauppskerum árlega.[12]

Hæð borgarlandsins eykst almennt frá suðvestri til norðausturs, þar sem fjöll mynda burðarás borgarinnar og hafið er að framan.

Baiyun fjallið eða „Hvítskýjafjall“ hefur stundum verið sagt „lungu“ Guangzhou borgar. Nafnið Báiyún kemur úr mandarín-kínversku og þýðir „hvít ský“ sem dregið er sýn á tinda fjallsins sem eru oft hjúpaðir mistri síðla vors eða á eftir rigningar. Fjallið sem er staðsett nokkrum kílómetrum norður af Guangzhou, er um 427 metrar á hæð.

Nankun fjall er hæsta fjall Guangzhou, um 1.210 metra yfir sjávarmáli. Tindur þess kallast „Tiantang-tindur“ eða „Himnatindur Nankun“. Það liggur í norðausturhluta borgarinnar og er hluti af Shimen þjóðgarðinum.[13]

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Guangzhou hefur loftslag heittempraðra misserisvinda (monsún) Austur-Asíu. Því fylgir rigningartími sem leysir af hólmi heitt þurrkaskeið. Þetta blaut-þurra loftslag er dæmigert fyrir suðausturhluta Kína.

Frá maí til byrjun október er sumartímabilið langt, blautt, heitt og rakt. Þessum sunnan- og suðvestanvindum fylgja oft fellibylir (hvirfilbylir), sem geta verið bæði eyðileggjandi og hættulegir. Meðalhiti í júlímánaðar er 28 °C. Að sumri er hlutfallslegur raki um 68 prósent, en árleg úrkoma á borgarsvæðinu er um 1.625 mm.[14]

Guangzhou er ein margra standborga sem standa frammi fyrir miklum flóðum ef sjávarborð hækkar vegna loftslagsbreytinga og hlýnurnar sjávar.[15][16]

Veðurfar í Guangzhou borg á árunum 1971 til 2000
Mánuður Jan. Feb. Mar. Apr. Maí Jún. Júl. Ágú. Sep. Okt. Nóv. Des. Árið
Meðalhiti (°C) 13,9 15,2 18,1 22,4 25,8 27,8 28,9 27,5 27,5 24,7 20,1 15,5 22,4
Meðalúrkoma (mm) 40,9 69,4 84,7 201,2 283,7 276,2 232,5 227,0 166,2 87,3 35,4 31,6 1.736,1
Meðal sólarstundir 118,5 71,6 62,4 65,1 104,0 140,2 202,0 173,5 170,2 181,8 172,7 166,0 1.628
Heimild: Veðurstofa Kína: Veður í Guangzhou borg á árunum 1971 til 2000 [17]

Efnahagur[breyta | breyta frumkóða]

Frá kaupstefni í Guangzhou borg haldin árið 1957 í vináttubyggingu Kínverja og Sovétríkjanna
Frá kaupstefnu Guangzhou borgar haldin árið 1957 í vináttubyggingu Kínverja og Sovétríkjanna.
Rafmagnsbifreiðin Aion LX sem framleidd er af GAC Group, kínverskum bílaframleiðanda í ríkiseigu með höfuðstöðvar í Guangzhou. Það er fimmti stærsti bílaframleiðandi Kína, með 2,1 milljónir seldra bíla árið 2021.
Rafmagnsbifreiðin Aion LX framleidd af GAC Group, kínverskum bílaframleiðanda í ríkiseigu með höfuðstöðvar í Guangzhou. Það er fimmti stærsti bílaframleiðandi Kína, með 2,1 milljónir seldra bíla árið 2021.

Miðað við Kína er Guangzhou borg velmegunar. Borgin sem nýtur mestrar erlendrar fjárfestingar í Kína[18], er hluti af gríðarstóru hagkerfi óshólma Perlufljóts. Árið 2021 var hagvöxtur 8,3%.[19] Framleiðslu- og þjónustugeiri borgarinnar er sterkur og iðnaður öflugur. Yfirvöld hvetja til hátækninýsköpunar, rannsókna og þróunar og vaxtar samkeppnisgreina framtíðarinnar. Sérstök áhersla er á stafræna þróun á öllum sviðum. Fyrirtæki eru hvött til að ráða erlendra sérfræðinga til borgarinnar.[20]

Framleiðsla og ferðaþjónusta[breyta | breyta frumkóða]

Frá árinu 1950 hefur iðnaður vaxið verulega í borginni. Upphafleg var áhersla á framleiðslu léttiðnaðar svo sem rafeindatækja, vefnaðarvöru, dagblaðapappírs, vinnslu matvæla og flugelda. Smærri verksmiðjur hafa verið þróaðar til framleiðslu ýmissa neysluvara. Hins vegar hefur fjárfesting í stóriðju aukist, þar á meðal í vélaframleiðslu, efnavöruframleiðslu (einkum úr jarðolíu), framleiðslu járns, stáls og sements, og skipasmíði. Bílaframleiðsla er orðin mikilvæg í borginni. Verðmæti stóriðju er nú meira en léttiðnaðar.

Frá því seint á áttunda áratug síðustu aldar hefur mikið af fjárfestingum á Guangzhou svæðinu komið frá útlendingum með aðsetur í Hong Kong, Makaó og Taívan. Afleiðing er sú að borgin er orðin ein af helstu iðnaðarsvæðum Suður-Kína.

Guangzhou er þekkt fyrir ýmsar handverksvörur, þar á meðal fílabeinsskurð, jaðismíði, útsaum, viftuframleiðslu, postulín og regnhlífar úr pappír. Þetta, ásamt frægri matargerð borgarinnar og margra safna hennar, hefur gert Guangzhou að einum helsta áfangastað ferðamanna Kína. Borgin hefur ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að bæta aðstöðu ferðamanna og er ferðaþjónusta orðinn mikilvægur þáttur atvinnulífs borgarinnar.

Guangzhou er megin framleiðslumiðstöð Perlufljóts svæðisins og þar með leiðandi verslunar- og framleiðslusvæði meginlands Kína.

Borgaryfirvöld hafa það að stefnu sinni að byggja nýsköpunarborg í forystu á landsvísu. Það hafa stóraukið útgjöld til tæknilegra rannsókna og þróunar og stuðning til nýsköpunarverkefni og til stofnunar nýrra hátæknifyrirtækja.[21]

Í matsrannsókn á samkeppnishæfni 291 borga Kína árið 2021 var Guangzhou talin meðal þeirra 10 efstu.[22]

Verslun og fjármál[breyta | breyta frumkóða]

Dúnviður eða silkitrefjatré (Bombax ceiba) blómstrar frá lok febrúar til byrjun maí. Blómið er einkenni Guangzhou en einnig í merki flugfélagsins China Southern Airlines.
Dúnviður eða silkitrefjatré (Bombax ceiba) blómstrar frá lok febrúar til byrjun maí. Blómið er einkenni Guangzhou en einnig í merki flugfélagsins China Southern Airlines.

Guangzhou hefur í aldir verið miðstöð viðskipta fyrir héruðin Guangdong, Guangxi, sem og aðliggjandi héruð í suðurhluta Kína. Vörur eins og sykur, ávextir, silki, timbur, te og kryddjurtir voru fluttar út en ýmsar framleiðsluvörur og búnaður fyrir iðnað var fluttur inn í landið um Guangzhou. Frá 1980 hefur aukið magn framleiddra vara og búnaðar (þar á meðal vélar, rafmagns- og rafeindavörur) verið flutt út um borgina til flestra heimshorna. – „Innflutnings- og útflutningssýning Kína“ sem haldin er á hálfsárs fresti frá árinu 1957, er löngu orðin viðurkennd í heimsviðskiptum.

Í miðhverfum borgarinnar eru stórar verslunarmiðstöðvar með stór- og sérverslanir ásamt mörgum heildsölumörkuðum. Bankar, þar með talið ríkis- og héraðs- og staðbundnar og erlendar fjármálastofnanir, eru útibú um allt borgarsvæðið. Þrátt fyrir að borgin sé ekki með kauphöll líkt og í nálægum borgum Shenzhen og Hong Kong, eru þó nokkur verðbréfamiðlarafyrirtæki .

Miðað við Kína er Guangzhou borg velmegunar. Umfang hagkerfis borgarinnar og nágrannaborga hennar sést ágætlega á samanburði við umfang heilla hagkerfa Evrópuríkja. Þar eru kínversku borgirnar á pari við sjálfstæð Evrópuríki.[23]

Árið 2021 var Guangzhou í 9. sæti í heiminum og í 5. sæti í Kína (á eftir Beijing, Sjanghæ, Hong Kong og Shenzhen) hvað varðar fjölda milljarðamæringa samkvæmt lista ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækisins Hurun, yfir ríkustu einstaklinga heims.[24]

Samkvæmt rannsókn Oxford Economics, er gert ráð fyrir að Guangzhou verði meðal 10 stærstu borga heims hvað varðar nafnverðsframleiðslu árið 2035 (ásamt Sjanhæ, Beijing, Shenzhen í Kína) og áætlar ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækið að nafnverðsframleiðsla á mann muni ná 42.000 Bandaríkjadölum árið 2030.[25]

Breytingar á landsframleiðslu Guangzhou 2000 - 2021[26]
Ár 2000 2002 2004 2006 2008 2010 2012 2014 2016 2018 2020 2021
Landsframleiðsla

(100 milljónir júana)

2,492 3,204 4,450 6,081 8,366 10,640 13,194 16,135 18,559 21,002 25,019 28,232

Lýðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Guangxiao hofið er eitt elsta búddista hof Guangzhou. Þetta er „Hof skínandi auðsveipni“ með áherslu á þá dyggð að sýna foreldrum, öldungum og forfeðrum virðingu.
Guangxiao hofið er eitt elsta búddista hof Guangzhou. Þetta er „Hof skínandi auðsveipni“ með áherslu á þá dyggð að sýna foreldrum, öldungum og forfeðrum virðingu ("Filial Piety").

Guangzhou er afar fjölmenn borg. Samkvæmt kínverska manntalinu árið 2020 var íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar 18.676.605 en í borgarkjarnanum bjuggu 16.096.724. Þeim hafði fjölgað um 47% frá síðasta manntali árið 2010. Borgin og nærliggjandi svæði er eitt þéttbýlasta í heiminum með um 66 milljónir íbúa.[27]

Flestir íbúar Guangzhou eru Han-Kínverjar. Næstum allir Kantónverjar tala kantónsku sem fyrsta tungumál sitt, á meðan flestir aðfluttir tala einhverskonar mandarínsku.

Kína er þekkt fyrir ójafnt kynjahlutfall. Á flestum svæðum Kína eru 112–120 drengir á hverjar 100 stúlkur. Í Guangdong-héraði með höfðuborgina Guangzhou, eru meira en 130 drengir fyrir hverjar 100 stúlkur.[28]

Stjórnsýsla[breyta | breyta frumkóða]

Kantónísk ópera á sviði í Guangzhou.
Kantónísk ópera á sviði í Guangzhou.

Þann 14. október 1949 hertók frelsisher kommúnista Guangzhou og borgin fór þá undir herstjórnarnefnd þeirra. Í dag fellur borgin undir kommúnískt stjórnmálakerfi Alþýðulýðveldisins Kína. Borgarstjórnin starfar undir forystu Borgarnefndar Kommúnistaflokks Kína í Guangzhou. Borgarstjórnin er staðsett í Yuexiu District.Þar er einnig yfirstjórn Guangdong-héraðs. Sameiginleg aðgerðastjórnstöð suður-herstjórnar Frelsishers Kína sem komið var á fót árið 2016 er einnig staðsett í borginni.[29] [30]

Guangzhou er undirhéraðsborg, sú næstfjölmennasta í Kína. Henni er skipt í 11 hverfi sem aftur er frekar skipt í 135 undirhverfi og 35 bæjarfélög. Hin 11 umdæmi eða hverfi eru undir lögsögu Guangzhou: Yuexiu, Liwan, Haizhu, Tianhe, Baiyun, Huangpu, Panyu, Huadu, Nansha, Zengcheng, og Conghua hverfi. Baiyun hverfið er fjölmennast eða með 3,7 millljónir íbúa. Fámennast er Conghua hverfi með einungis 720 þúsund íbúa.[31]

Yuexiu-hverfið er viðskipta- og fjármálamiðstöð Guangzhou, sem og staður héraðs- og borgarstjórnar. Þar eru einnig helstu hótel borgarinnar, stórverslanir og kvikmyndahús. Skýjakljúfar liggja við bakka Perlfljóts í miðborginni meðfram risastóru Haizhu torgi við fljótið.[32]

Í Tianhe-hverfi er önnur fjármálamiðstöð. Stefnt er að hverfi verði að nýju miðlægu viðskiptahverfi borgarinnar fyrir 21. öld. Þar er 103 hæða skrifstofuturn, Guangzhou International Finance Centre og 111 hæða CTF fjármálamiðstöðin.[33]

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

„Guangzhou háskólaborgin“ er samfélag tíu háskólastofnana á eyju í Perluánni suður af miðborginni. Þar geta 350 til 400 þúsund manns starfað.
Guangzhou háskólaborgin“ er samfélag tíu háskólastofnana á eyju í Perlufljóti suður af miðborginni. Þar geta 350 til 400 þúsund manns starfað.
Aðalinngangur háskólasvæðis Tækniháskóla Suður-Kína.
Aðalinngangur háskólasvæðis Tækniháskóla Suður-Kína.

Guangzhou er ein framsæknasta borg Kína hvað varðar menntun. Auk fjölda leikskóla, grunnskóla og gagnfræðaskóla eru í borginni meira en 40 háskólastofnanir.[34]

Auk Sun Yat-sen háskólans (1924) og Kínverska læknisháskólans í Guangzhou (1924), eru í borginni meðal annars Jinan háskólinn (1906), Tækniháskóli Suður-Kína (1952), Kennaraháskólinn Suður-Kína (1933), Læknaháskóli Suður-Kína (1951), Landbúnaðarháskóli Suður-Kína (1909), Guangdong háskóli erlendra fræða (1965), Fjármála- og hagfræðiháskóli Guangdong (1983) Listaháskóli Guangzhou (1953), Xinghai tónlistarháskólinn (1932) og Tækniháskóli Guangdong (1985). [35]

Metnaðarfullt verkefni sem kennt var við „Guangzhou háskólaborgina“ (HEMC) var hleypt af stokkunum í upphafi 21. aldar, með það að markmiði að skapa háskólaborg margra stofnana háskólastig á eyju í Perlufljóti suður af miðborginni í Panyu-hverfi. Háskólaborgin nær yfir um 17,9 ferkílómetra svæði flatarmáli og 3,53 milljónir fermetra innandyra og getur tekið á móti 350 til 400 þúsund manns. [36]

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Brautarpallur 1 á Shiguanglu neðanjarðarlestarstöð Guangzhou. Þar í gegn fer „Leið 22“ sem mun að endingu ná til alþjóðaflugvallar borgarinnar.
Brautarpallur 1 á Shiguanglu neðanjarðarlestarstöð Guangzhou. Þar fer „Leið 22“ til alþjóðaflugvallar borgarinnar.
Farþegaaðstaða Guangzhou Baiyun alþjóðaflugvallarins við Guangzhou borg í Kína.
Farþegaaðstaða Guangzhou Baiyun alþjóðaflugvallarins.

Flugsamgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Guangzhou Baiyun alþjóðaflugvöllur er meginflughöfn borgarinnar. Þetta er þriðji stærsti safnvöllur Kína og ein af þremur annasömustu flugsamgöngumiðstöðvum Kína. Flugvöllurinn, sem hefur tvær flugstöðvar sem þjóna bæði innanlandsflugi og alþjóðaflugi, er staðsettur um 43 kílómetra norður af miðborginni í Baiyun umdæmi borgarinnar, sem gefur vellinum nafn.

Árið 2019 fóru um 73.4 milljónir farþega um flugvöllinn og um 1.920.000 tonn af farmi.

Alls bjóða um 80 kínversk og erlend flugfélög upp á meira en 220 áfangastaði um allan heim, þar á meðal um 90 alþjóðlegra og svæðisbundna áfangastaði. Lestir, snarlestir og strætisvagnar tengja flughöfnina við miðborg Guangzhou og nærliggjandi borgir og svæði.

Járnbrautir[breyta | breyta frumkóða]

Guangzhou hefur þrjár járnbrautarstöðvar sem sjá um farþegaflutninga: Huanshi lestarstöðin er sú stærsta og mikilvægasta, en hún tengir lestir borgarinnar við Beijing, Wuhan, Nanjing, Chengdu, Chongqing, Xian, Lasa og margar aðrar borgir í Kína. Austurlestarstöðin (Tianhe stöðin) er aðallega með lestir til Hong Kong og tíðar hraðlestir til Shenzhen.Norðurlestarstöðin í Huadu hverfi er lítil lestarstöð sem rekur aðallega hraðlestir milli borgarinnar og Wuhan.[37]

Hafnir borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Guangzhou er ein af tíu þekktustu hafnarborgum Kína. Hafnir borgarinnar samanstanda af Humen höfn, Xinsha höfn, Huangpu höfn og mörgum öðrum innri höfnum. Skipaleiðir frá borginni liggja til meira en 100 innanlandshafna og yfir 300 erlendra hafna. Sumar þessara hafna veita farþegaflutningaþjónustu. Panyu Lianhuashan höfnin og Nansha höfn bjóða upp á háhraða farþegaskip til að komast til Hong Kong daglega.[38]

„Vatnsrútur“[breyta | breyta frumkóða]

Meira en 14 „vatnsrútur“ (tvíbytnur) bjóða íbúum og ferðamönnum flutningaþjónustu meðfram Perlufljóti.

Borgarsamgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Það eru 14 neðanjarðarlestarlínur í borginni. Neðanjarðarlestar nota áfangagjaldakerfi og tengja saman mikilvægustu hluta borgarinnar, þar á meðal alþjóðaflugvöllinn, meginlestarstöðvar borgarinnar, og Foshan-borg.

Árið 2018 ferðuðust 8,2 milljónir farþega á degi hverjum með borgarlestum Guangzhou. Árlegur farþegafjöldi árið 2019 var um 3,3 milljarður manna. Kerfið byggir á 16 lestarlínum og 259 stöðvum.

Áhugaverðir skoðunastaðir[breyta | breyta frumkóða]

Guangzhou er stundum nefnd „Borg hrútanna“. Í Yuexiu almenningsgarðinum sjá „fimm hrúta skúlptúrinn“ eitt þekktasta höggmyndalistaverk borgarinnar.
Guangzhou er stundum nefnd „Borg hrútanna“. Í Yuexiu almenningsgarðinum sjá „fimm hrúta skúlptúrinn“ eitt þekktasta höggmyndalistaverk borgarinnar.
Skemmtiferðaskip á Perlufljóti hjá miðborg Guangzhou.
Skemmtiferðaskip á Perlufljóti hjá miðborg Guangzhou.
Göngugata Shangxiajiu í gömlu miðborg Guangzhou er svæði velmegunar og verslunar. Auk eldri bygginga er þar mikið af stórverslunum og veitingastöðum.
Shangxiajiu göngugatan í gömlu miðborginni er svæði velmegunar og verslunar. Auk eldri bygginga eru þar stórverslanir og veitingastaðir.
Inngangur Chimelong skemmtigarðsins í Guangzhou.
Inngangur í Chimelong skemmtigarðinn í Guangzhou.

Guangzhou er vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn. Hér eru nokkrir helstu áfangastaðir þeirra:[39][40]

  1. Shamian eyja er þekkt fyrir meira en 150 sögulegar byggingar í gotneskum, barokkstílum, nýklassískum og fleiri stílum. Til forna var þetta mikilvægt viðskiptahverfi, en eftir að borgin varð ein „sáttmálahafna“ Kína eftir 1842, risu í hverfinu evrópsku byggingar byggðar hver af annarri.
  2. Kanton turninn, eða „Sjónvarps- og útsýnisturn Guangzhou“, er 604 metra hár fjölnota turn í Haizhu hverfi Guangzhou borgar. Hann er eitt hæsta mannvirki veraldar. Heimsókn á útsýnispalla efst í turninum gefur góða sýn yfir miðbæinn við Perlufljót.
  3. Chimelong þekktasti skemmtigarður Guangzhou er í Panyu hverfinu. Hann samanstendur af skemmtigarði, sirkus, tveimur dýragörðum, vatnagarði og fleiru.
  4. Dómkirkja hins helga hjarta Jesú“ er rómversk-kaþólsk dómkirkja svið norðurbakka Perlufljóts í hjarta gömlu borgarinnar. Kirkjan er byggð í gotneskum stíl og er aðsetur erkibiskupsins í Guangzhou.
  5. Forfeðrahof Chen fjölskyldunnar er mikilvægur sögustaður í Guangzhou. Hofið, sem var reist árið 1894 undir lok Tjingveldisins, er stærsta forfeðrhofið Guangdong-héraðs. Það samanstendur af 19 húsum sem tengjast húsgörðunum og garðinum.
  6. Yuexiu hæðir eru vinsæll áfangastaður ferðamanna borgarinnar. Þessi stóri garður er staðsettur á hæð í miðborginni, með gróskumiklum plöntum og þremur vötnum. Innan hans er hluta af fornum borgarmúrnum og Zhenhai turninn („Fimm hæða pagóðan“) var byggður 1380 á tímum Mingveldisins. Þar er einnig „fimm hrúta skúlptúrinn“ sem er eitt þekktasta mannvirkið Guangzhou. Sagan segir að fyrir meira en 2.000 árum hafi borgin verið hrjóstrug land hungursneyða þrátt fyrir mikið erfiði. Dag einn komu fimm guðlegar verur klæddar í fimm litum ríðandi fimm hrútum og léku goðsagnakennda tónlist færandi heimamönnum korn, og blessun. Hrútarnir urðu að steini og borgin dafnaði. Guangzhou er því stundum nefnd „Borg hrútanna“.
  7. Guangdong safnið í Tianhe hverfi er áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á sögu, menningu og listum Guangdong-héraðs. Þar eru 166.000 safnmunir, skrautskrift, málverk, keramik, tréskurður og gimsteinar á yfir 67.000 fermetra safnasvæði.
  8. Shangxiajiu göngugatan í gömlu miðborginni er svæði velmegunar og verslunar. Auk eldri bygginga eru þar margar stórverslanir og veitingastaðir.
  9. Perlufljót er lífæð Guangzhou. Fljótasigling er góð leið til að sjá nútímalegar byggingar og einstakar brýr borgarinnar. Bæði eru í boði vatnarútur sem eru hluti af samgöngukerfi borgarinnar og margskonar skemmtiferðaskip.
  10. Xiaozhou þorpið er fornt smáþorp í suðurhluta Guangzhou sem stofnað var fyrir meira en 600 árum. Þar eru sögulegar byggingar, ávaxtagarðar og síki. Á undanförnum árum hefur staðurinn orðið griðastaður listamanna.
Horft yfir Guangzhou borg.
Horft yfir Guangzhou borg.
Horft yfir Guangzhou borg að næturlagi.
Horft yfir Guangzhou borg að næturlagi.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Guangzhou | History, Population, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 20. júlí 2022.
  2. „Major Agglomerations of the World - Population Statistics and Maps“. Afrit af uppruna á 12. júní 2018. Sótt 18. janúar 2021.
  3. Santa Barbara Portuguese Studies, Vols. I–II, Jorge de Sena Center for Portuguese Studies, 1994, bls. 256
  4. T'ien Hsia Monthly, Vol. VIII, Sun Yat-sen Institute, 1939, bls. 426
  5. Morgunblaðið (14. apríl 1987). „Kína: Námsmönnum í Kanton bannað að dansa diskó“. Árvakur. Sótt 20. júlí 2022.
  6. Morgunblaðið (30. júlí 1967). „Fallhlífahermenn sendir til Wuhan — Hundruð hafa fallið í Kanton“. Árvakur. Sótt 20. júlí 2022.
  7. Þjóðviljinn (7. janúar 1979). „Deng Xiaoping og félagar kynna nýja stafsetningu: Latnesk stöfun orða breytist“. Þjóðviljinn. Sótt 20. júlí 2022.
  8. Guangzhou International. „Long history“. The People`s Government of Guangzhou Municipality. Sótt 21. júlí 2022.
  9. „Guangzhou - History | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 21. júlí 2022.
  10. Guangzhou International. „Origin of City's Names“. The People`s Government of Guangzhou Municipality. Sótt 21. júlí 2022.
  11. Perdue, Peter C. (2009) (2009). „Rise & Fall of the Canton Trade System, Visualizing Cultures“ (PDF). MIT. Sótt 21. júlí 2022.
  12. Britannica, The Editors of Encyclopaedia. (2. ágúst 2018). „Pearl River Delta“. Encyclopedia Britannica. Sótt 21. júlí 2022.
  13. „南昆山“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 16. ágúst 2021, sótt 22. júlí 2022
  14. „Guangzhou | History, Population, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 22. júlí 2022.
  15. Camille Squires (25. apríl 2022). „These are the 10 fastest sinking cities in the world“. World Economic Forum. Sótt 21. júlí 2022.
  16. „These are the 10 fastest sinking cities in the world“. Big Think (bandarísk enska). Sótt 23. júlí 2022.
  17. 中国地面国际交换站气候标准值月值数据集(1971-2000年) (kínverska). China Meteorological Administration. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2013. Sótt 12. ágúst 2016.
  18. The American Chamber of Commerce in South China (24. maí 2021). „Guangzhou selected top preferred reinvestment destination for four consecutive years“. “AmCham South China”. Sótt 21. júlí 2022.
  19. Giulia Interesse (19. júlí 2022). „Guangzhou: Industry, Economics, and Policy“. China Briefing. Sótt 21. júlí 2022.
  20. Giulia Interesse (19. júlí 2022). „Guangzhou: Industry, Economics, and Policy“. China Briefing. Sótt 21. júlí 2022.
  21. Guangzhou International. „The Economy“. The People`s Government of Guangzhou Municipality. Sótt 21. júlí 2022.
  22. 刘明. „Shanghai tops city competitiveness rankings“. global.chinadaily.com.cn. Sótt 25. ágúst 2022.
  23. Jeff Desjardins (3. nóvember 2017). „35 Chinese Cities With Economies as Big as Countries“. Visual Capitalist. Sótt 21. júlí 2022.
  24. Hurun - a research, media and investments group (2. mars 2021). „Hurun Global Rich List 2021“. Hurun. Sótt 21. júlí 2022.
  25. „These will be the most important cities by 2035“. World Economic Forum (enska). Afrit af uppruna á 3. nóvember 2020. Sótt 3. nóvember 2020.
  26. 广州市统计局 (6. nóvember 2021). 广州统计年鉴2021. 中国统计出版社. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. apríl 2022. Sótt 8. desember 2021.
  27. „Major Agglomerations of the World - Population Statistics and Maps“. Afrit af uppruna á 12. júní 2018. Sótt 18. janúar 2021.
  28. „Guangzhou Population 2019 (Demographics, Maps, Graphs)“. Afrit af uppruna á 21. mars 2019. Sótt 21. mars 2019.
  29. „广州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 21. júlí 2022, sótt 23. júlí 2022
  30. „中国人民解放军南部战区联合作战指挥中心“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 12. desember 2020, sótt 23. júlí 2022
  31. „广州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 21. júlí 2022, sótt 23. júlí 2022
  32. „Guangzhou | History, Population, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 20. júlí 2022.
  33. „Guangzhou | History, Population, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 20. júlí 2022.
  34. „广州市“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 21. júlí 2022, sótt 25. júlí 2022
  35. Gong-fu, Zhong and Kuo, Ping-chia. (15. nóvember 2021). „Guangzhou: Administration and society“. Encyclopedia Britannica,. Sótt 22. júlí 2022.
  36. „广州大学城“, 维基百科,自由的百科全书 (kínverska), 25. júlí 2022, sótt 25. júlí 2022
  37. Travel China Guide (TravelChinaGuide.com). „Guangzhou Transportation“. Xi'an Marco Polo International Travel Service Co., Ltd. Sótt 21. júlí 2022.
  38. Travel China Guide (TravelChinaGuide.com). „Guangzhou Transportation“. Xi'an Marco Polo International Travel Service Co., Ltd. Sótt 21. júlí 2022.
  39. Travel China Guide (TravelChinaGuide.com). „Best Places to Visit in Guangzhou for First-time Visitors“. Xi'an Marco Polo International Travel Service Co., Ltd. Sótt 22. júlí 2022.
  40. „Guangzhou - Wikitravel“. wikitravel.org. Sótt 24. júlí 2022.