Salurinn

Hnit: 64°06.720′N 21°54.546′V / 64.112000°N 21.909100°A / 64.112000; 21.909100
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Salurinn er sérhannaður tónleikasalur í Tónlistarhúsi Kópavogs sem er staðsett að Hamraborg 6. Tónlistarhús Kópavogs er hluti af Menningarmiðstöð Kópavogs. Salurinn var tekinn í notkun 2.janúar árið 1999 og var fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins. Salurinn tekur 300 manns í sæti, 200 í sal og 100 á svölum og forrými Salarins rúmar einnig 300 manns. Frá opnun hafa að meðaltali verið haldnir 2 til 3 tónleikar á viku í Salnum og einnig hefur hann verið notaður undir fjölda ráðstefna, námskeiða og fleiri viðburða. Arkitektar hússins eru Jakob Líndal og Kristján Ásgeirsson. Við hönnunina var áhersla lögð á að tryggja sem bestan hljómburð og leitað ráðgjafar frá sérfræðingum. Einnig var lögð áhersla á íslenskan efnivið í byggingunni og má meðal annars finna greni úr Skorradal á innveggjum Salarins og malað grjót úr grunni hússins í gólfum.

Allt frá opnun 1999 hefur Salurinn gegnt mikilvægu hlutverki í tónlistarlífi landsins. TÍBRÁ er tónleikaröð Salarins og hefur skipað stóran sess í íslensku tónlistarlífi. Fjölmargir erlendir gestir hafa komið fram á vegum TÍBRÁ. Salurinn er leigður út til almenns tónleikahalds og þar eru haldnir mjög fjölbreyttir tónleikar. Salurinn er einnig mjög vel búinn til ráðstefnu-, námskeiðs-, og fundarhalda og hefur hann verið nýttur vel sem slíkur.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]